Þessi frábæri saltfiskréttur kemur frá Alberti Eiríkssyni sem er rómaður fyrir hollan og góðan mat og virðingu fyrir hráefninu.

800 g soðinn saltfiskur

2 dl mjólk

2 dósir sýrður rjómi

100 g majones

3-8 rifin hvítlauksrif eftir smekk

A.m.k. 1 tsk hvítlauksduft,
1/2 tsk pipar,
cayenne á hnífsoddi.

2 snittubrauð, mjó (flûte), gott er að hægt sé að stinga heilum bita upp í sig, þessi mjóu í Bónus eru ágæt.

Sjóðið saltfiskinn í mjólk og kælið. Stappið með gaffli, ekki mjög smátt, ekki er verra að finna fyrir saltfiskbitum undir tönn.

Blandið sýrðum rjóma, majonesi, hvítlauk og kryddi saman í skál og hrærið saltfiskinn út í. Bætið í kryddi þar til bragðsinfónía fer að hljóma, en gott er að láta standa yfir nótt.

Steikið 1 hvítlauksrif í sneiðum í 1/2 dl af olíu og fjarlægið hvítlaukinn (annars brennur hann síðar). Steikið snittubrauðssneiðar öðrum megin við allháan hita í olíunni og setjið á disk. Bætið olíu á pönnuna, ef hana tekur að þverra.

Setjið maukið á steiktu hliðina með tveimur teskeiðum, þegar sneiðarnar eru orðnar kaldar. Malið pipar yfir og skreytið með steinselju eða öðru sem er við hendina.

(Heimild: Albert Eiríksson, http://www.alberteldar.com/2012/06/17/saltfisksnittur/)

0
    0
    Karfan þín