Sýningin MATUR-INN var haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri helgina 2.-4. október 2009, í fjórða sinn.

Óhætt er að segja að MATUR-INN 2009 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð. Að baki þessum félögum standa matvælaframleiðendur stórir sem smáir, veitingaaðilar, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir- og þjónustufyrirtæki – allt aðilar sem eiga það sammerkt að matur kemur við sögu í þeirra starfi.

Ekta fiskur tók að sjálfsögðu þátt í sýningunni, en á síðustu sýningu árið 2007 fengum við frumkvöðlaverðlaunin sem okkur þykja mikill heiður.

Fjölmargir viðburðir áttu sér stað á sýningunni, meðal annars matreiðslukeppni þjóðþekktra Akureyringa. Keppendur að þessu sinni voru þau Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, Sigrún Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi, María Sigurðardóttir, leikhússtjóri og sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur. Þau fengu hráefni afhent 15 mínútum áður en keppni hófst og höfðu 1,5 klst. til að elda rétt fyrir 4. Í ljós kom að hráefnið var meðal annars saltfiskur frá Ekta fiski og sigurvegarinn var Sigrún Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi. Með góðfúslegu leyfi hennar birtum við siguruppskriftina hér í uppskriftasafninu okkar.

0
    0
    Karfan þín